Sterkar stelpur- sterk samfélög

Sterkar stelpur

Unglingsstúlkur í fátækustu löndum heims eru í brennidepli í kynningarviku frjálsra félagasamtaka og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands undir heitinu Sterkar stelpur - sterk samfélög. Kynningarvikan stendur yfir alla þessa viku, eða 6. – 11. október og hófst formlega á Austurvelli sl. föstudag þar sem Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, gekk  með tíu lítra fötu 10 mmetra til stuðnings unglingsstúlkum í þróunarríkjunum. Við skorum á aðra að taka þátt í vatnsfötuáskoruninni!

Rannsóknir síðustu ára hafa annars vegar sýnt að unglingsstúlkan er einn höfuðlykill að því að uppræta fátækt í heiminum. Hins vegar að staða unglingsstúlkna er víða skelfileg þar sem þær verða fyrir mannréttindabrotum og mismunun vegna kyns og aldurs. Jafnframt felur átakið í sér hvatningu til allra stúlkna um að standa á rétti sínum og láta rödd sína heyrast, hátt og snjallt.

Á hverjum degi upplifa milljónir stúlkna að raddir þeirra séu kæfðar, lífi þeirra ógnað, réttindi þeirra fótum troðin, frelsi þeirra takmarkað – einungis vegna þess að þær eru stelpur. Með kynningarátakinu Sterkar stelpur - sterk samfélög vilja aðstandendur vikunnar að íslenska þjóðin sendi stúlkum sem búa við brot á mannréttindum skilaboð um að þær standi ekki einar.

Viðburðir vikunnar:

Mánudag og miðvikudaginn 8 október kl. 18 mun Bíó Paradís sýna myndina Girl Rising. Ókeypis aðgangur fyrir alla.  Hægt er að sjá brot úr myndinni hér: https://www.youtube.com/watch?v=BJsvklXhYaE

Þriðjudaginn 7 október kl. 12 verður baráttuhátíð í Hörpu þar sem Pernilla Fenger, framkvæmdastjóri UNPF á Norðurlöndum og Sigríður María Egilsdóttir, laganemi og fv. Ræðumaður Íslands, stíga á stokk.

Föstudaginn 10 október kl. 20 verða stórtónleikar í Iðnó í samstarfi við KÍTÓN, félag kvenna í tónlist. Það er ókeypis aðgangur og allir eru velkomnir. Fram koma Mammút, Young Karin, Himbrimi, Reykjarvíkurdætur, Boogie Trouble, Una Stef, Alvia Islandia, Kælan Mikla, Soffía Björg og Laufey og Júnía, sigurvegarar Söngkeppni Samfés. Kynnir verður  Tinna Sverrisdóttir Reykjavíkurdóttir.

Einnig geta einstaklingar eða hópar undir 18 ára tekið þátt í myndbandasamkeppni fyrir 10 október (breytt dagsetning).

Myndbönd  https://www.youtube.com/watch?v=SVgv-iUSdmI

Linkur á facebook síðu átaksins https://www.facebook.com/throunarsamvinna.ber.avoxt

Myndbandasamkeppni

Hans Rosling

Dr. Hans Rosling í Hörpu 15. september næstkomandi

Hans Rosling
Hans Rosling stofnaði gagnaveituna Gapminder

Hinn heimskunni sænski fyrirlesari og fræðimaður Hans Rosling heldur erindi í 15. september kl. 16:15 í Silfurbergi í Hörpu.

Hann kemur hingað til lands á vegum félagsins Afríka 20:20 í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) og Embætti landlæknis.

Hans Rosling er læknir og prófessor í alþjóðaheilbrigðisvísindum við Karolinska institutet í Stokkhólmi. Á síðustu árum hefur hann vakið heimsathygli fyrir heillandi framsetningu á tölfræðilegum gögnum með gagnvirkri og áhrifamikilli sjónrænni grafík sem byggir á hans eigin forriti, Gapminder.

Rosling er mjög eftirsóttur fyrirlesari og hefur margoft flutt erindi á TED (Technology, Entertainment & Design), gert heimildamyndir, m.a. fyrir BBC (The Joy Of Stats og Don´t Panic - The Truth About Population) og haldið fyrirlestra með Bill Gates um heilbrigðismál og þróunina í heiminum.

Eitt frægasta kvikmyndabrot hans fjallar um þróun heimsins í tvær aldir hjá tvö hundruð þjóðum – á fjórum mínútum! Árið 2012 var Hans Rosling á lista TIME tímaritsins yfir 100 áhrifamestu einstaklinga í heiminum.

Í fyrirlestri sínum mun Hans Rosling á sinn einstæða hátt varpa ljósi á heilsu fólks víða um heim og margvíslega áhrifaþætti hennar.

Fundurinn fer fram á ensku og verður dagskrá hans á þessa leið:

16:15     Ávarp.
Geir Gunnlaugsson landlæknir, formaður Afríku 20:20

16:25     Fact-based world view.
Dr. Hans Rosling, professor of International Health and               co-founder of Gapminder

17:25     Spurningar fundargesta og almennar umræður

18:00     Fundarslit.

Fundarstjóri verður Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og frv. sendiherra Íslands í Suður-Afríku.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður við fjölda sæta í Silfurbergi og því er mikilvægt að áhugasamir skrái sig sem fyrst á vef Embættis landlæknis á síðunni Skráning á fyrirlestur Hans Rosling.

Þátttaka er ókeypis og skráning er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Skráningu lýkur 12. september.

Athugið: Vísa skal fram staðfestingu á skráningu við innganginn í Silfurberg.

Frekari upplýsingar um viðburðinn veitir:

Gunnar Salvarsson, útgáfu- og kynningarstjóri ÞSSÍ (netfang:gunnar.salvarsson@iceida.is, fs. 699 5506)


Um Hans Rosling og Gapminder:
http://www.gapminder.org/
http://www.ted.com/search?q=rosling
http://www.gapminder.org/videos/dont-panic-the-facts-about-population/#.U-pAmPl_vW
https://www.youtube.com/watch?v=jbkSRLYSojo

Ball

Afríka 20:20 stendur fyrir dúndur afrísku balli í Iðnó.


Dönsum við líflega afríska tónlist fram á nótt

Húsið opnar klukkan 21.30-02 Svo munum við hrista okkur og skekja við afríska tónlist fram á nótt.
Það ætti enginn að láta þetta fram hjá sér fara - það er fátt skemmtilegra, hollara og gleðilegra en að gleyma sér í dansi í góðum félagasskap

Dans við vinsæl dægurlög frá Afríku sunnan Sahara í boði DJ Kito frá Mósambik. Sérstakir gestir eru The Bangoura Band og Cheick og félagar frá Gíneu Conakry slá trommur.


Dance to African music
African music in IÐNÓ
-central Reykjavík by the lake

Special guest The Bangoura Band and Cheick, DJ Kito from Mozambique, and furthermore drummers from Guinea-Conakry

En endilega takið daginn frá- come and dance with us

Verð 1500kr /tickets 1500

Samstarf félagsins og Morgungluggans

Alla mánudaga koma félagsmenn í þáttinn og segja frá upplifun sinni og ferðalögum um ýmis lönd og svæði Afríku.

29. júlí: Sigríður Baldursdóttir heilbrigðismál í Guinea Bissau. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/29072013-0 tónlist: Super Mama Djombo (Gínea-Bissá)

22. júlí; Hulda Guðrún Gunnarsdóttir menntamál. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/22072013-1 tónlist; Amaryoni (Suður-Afríka)

15. júlí;  Laufey Sigrún Haraldsdóttir tónlist og menning í Vestur-Afríku. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/15072013-0 tónlist: Ballet Africans

8. júlí: Jónas Haraldsson;Fótbolti í Afríku. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/08072013-0 tónlist: Fela Kuti (Nigería)

1. júlí: Kristján B. Jónasson bókmenntir. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/01072013-0 tónlist: Salif Keita (Malí)

24. júní: Magnfríður Júlíusdóttir: Jóhannesarborg í Suður-Afríku. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/24062013-0 tónlist: Thandiswa (Suður-Afríka) http://www.thandiswa.com/

10. júní: Birna Halldórsdóttir að segja frá störfum sínum í Gambíu. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/10062013/birna-halldorsdottir

3. júni; Einar Geirsson og Anna Margrét Gunnarsdóttir; Að alast upp sem barn í Guinea Bissau. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/03062013-0 tónlist: lag frá Guinea Bissau

27. maí: Geir Gunnlaugsson: Heilbrigðismál. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunglugginn/27052013/afrikuspjall-geir-gunnlaugsson-landlaeknir-0 tónlist: Super Mama Djombo (Gínea-Bissá) http://afroriginal.blogspot.com/2012/05/super-mama-djombo.html

13.maí; Egill Bjarnason sem ræddi við Hrafnhildi um ferðir og upplifanir frá Afríku, en hann hefur m.a. að ferðast um álfuna á hjóli þúsundir kílómetra. http://www.ruv.is/mannlif/a-hjoli-nidur-strond-v-afriku

6. maí; Páll Stefánsson ljósmyndari sagði sögur frá Malí, Grænhöfðaeyjum og fleiri stöðum í Afríku. http://www.ruv.is/mannlif/heilladist-af-afriku-alfu-gledinnar

29. apríl 2013

Í fyrsta þættinum var fjallað um þær ótrúlegar breytingar sem orðið hafa á síðustu 10 árum í þessari margslungnu heimsálfu Afríku. Í nýlegri grein í tímartitinu The Ecconomist kemur fram ýmsir þættir hafa áhrif á þessa þróun,m.a.lýðræðisleg þróun og margt fleira. Jón G. Pétursson sem situr í stjórn félagsins Afríka 20:20 kom í Morgungluggann á Rás 1 og sagði frá. http://www.ruv.is/mannlif/jakvaed-teikn-a-lofti-i-malefnum-afriku

Afríka 20:20 stendur fyrir dúndur afrísku balli í Iðnó

Afríka 20:20 stendur fyrir dúndur afrísku balli í Iðnó.


Dönsum við líflega afríska tónlist fram á nótt

Húsið opnar klukkan 22.00-02 Svo munum við hrista okkur og skekja við afríska tónlist fram á nótt.
Það ætti enginn að láta þetta fram hjá sér fara - það er fátt skemmtilegra, hollara og gleðilegra en að gleyma sér í dansi í góðum félagasskap

ATH

SÉRSTAKIR GESTIR KL 23:00

African Ice Band með Cheick Bangoura

Einnig mun koma fram Capoeira “dansarar” en það er afró-brasilísk bardagalist með fimleikaívafi og dansi.

Dance to African music
African music in IÐNÓ
-central Reykjavík by the lake

Miðaverð /tickets 1200kr

Hægt að skrá sig á viðburðinni undir facebook síðu félagsins

Endilega fjölmennið á þetta skemmtilega og árlega ball okkar.

Aðalfundur 22.Febrúar 2013

Ágætu félagsmenn Afríku 20:20 og annað áhugafólk um málefni Afríku sunnan Sahara,

Hér með er boðað til aðalfundar félagsins föstudaginn 22. febrúar 2013 kl. 17-19 á Café Paris við Austurvöll.

Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í stjórnarstörfum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirritaðan.

Skv 6. gr laga félagsins er dagskrá aðalfundar sem hér segir:

6. grein
Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal haldinn árlega að hausti. Allir félagsmenn eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðarétt. Fundurinn skal boðaður skriflega með minnst 2 vikna fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundarefni. Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
1. Setning fundar og kynning dagskrár.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfstímabili.
4. Reikningar félagsins lagðir fram.
5. Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta starfstímabils lagðar fram.
6. Ákvörðun félagsgjalda.
7. Lagabreytingar.
8. Kosning formanns til eins árs.
9. Kosning eins stjórnarmanns, eins varamanns og eins skoðunarmanns reikninga til tveggja ára.
10. Kosning í nefndir félagsins.
11. Önnur mál.
Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum, þó þarf a.m.k. 2/3 atkvæða til lagabreytinga (sjá gr. 7). Komi fram tillaga um að leggja félagið niður þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna

Halda skal gerðarbók um aðalfundi félagsins og skrá allar samþykktir og ákvarðanir. Fundargerðir aðalfunda skulu aðgengilegar félagsmönnum eigi síðar en fjórum vikum eftir að aðalfundur er haldinn.

Vinsamlegast greiðið félagsgjöldin fyrir árið 2013 (2000 krónur) á eftirfarandi reikning:

Reikningseigandi: Áhugamannafélag Afríka 20:20
Reikningsnúmer: 0334-26-058202
Kennitala: 510302-5240

Að lokum, árlegt vorball Afríku 20:20 í Iðnó verður haldið föstudaginn 12. apríl nk. Nánari upplýsingar síðar en takið daginn nú þegar frá!

Fh Afríku 20:20

Geir Gunnlaugsson, formaður
Tjarnargata 16
IS-101 Reykjavík
home +354-552 0360/mobile +354-843 6237

“Þróunarsamvinna ber ávöxt”

Þrjár afrískar kvikmyndir verða sýndar í tilefni af átakinu “Þróunarsamvinna ber ávöxt” í næstu viku en hátíðin er samstarfsverkefni félagsins og Bíó Paradís.

Þessar myndir verða sýndar:

Viva Riva! (2010), Djo Tunda Wa Munga frá Kongó er höfundur og leikstjóri.

Myndin gerist í Kongó þar sem ríkir bensínskortur og smákrimmi kemst yfir magn af eldsneyti sem hann ætlar sér að græða á. En fleiri hafa áhuga að taka þátt og gengjastríð geisar um eldsneytið með hefndum, fjárkúgunum og mannránum. Hefur fengið verðlaun í Toranto 2010, MTV, og Nígeríu 2011.

Bamako (2006), Abderrahmane Sissako frá Malí er höfundur og leikstjóri.

Myndin gerist í Bamako höfuðborg Malí og er háðsádeila um hlutverk alþjóðastofnana í Afríku. Par í vonlitlu hjónabandi fylgist með réttarhöldum þar sem spurt er um neikvæð áhrif alþjóðastofnana á hagkerfi fátæku landanna. Myndin fékk verðlaun í Instanbul 2007.

14. Kilometres (2008), Gerardo Olivares frá Spáni er höfundur og leikstjóri.

Dramatísk vegamynd sem fjallar um ungt fólk frá Afríku sem dreymir um betri heim í Evrópu og ferðast gegnum eyðimörkina og síðasta kaflann 14 kílómetrana yfir Gíbraltarsundið. Ung kona frá Malí sem flýr nauðungarhjónaband sitt við eldri mann og ungur maður frá Niger sem vill verða fótboltahetja í evrópskum klúbbi, slást saman í hættulega för norður í viðsjála paradís. Myndin vann fyrstu verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Valladolid 2007.

Afríkuspjall á rás 1

Næstu þriðjudaga mun félagið koma í lítið Afríkuspjall á rás 1 í þáttinum Samfélagið í nærmynd.  Fyrsti þátturinn var 22.maí. 2012, þar sem ritari félags Jón Geir kom í stutt spjall.

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/22052012/afrikuspjall-jon-geir-peturssson

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/12062012/afrikuspjallid-david-bjarnason

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/05062012/afrikuspjall-gudrun-helga-johannsdottir

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/29052012/afrikuspjall-huld-ingimarsdottir

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/19062012/afrikuhornid-erla-hlin-hjalmarsdottir

http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/26062012/afrikuspjall-petur-waldorf

http://www.ruv.is/frett/samfelagid-i-naermynd/bjo-lengi-i-afriku

http://www.ruv.is/frett/samfelagid-i-naermynd/fra-angola-til-patreksfjardar

http://www.ruv.is/frett/samfelagid-i-naermynd/samtokin-alnaemisborn

http://www.ruv.is/frett/samfelagid-i-naermynd/borgarskipulag-i-afriku

Afríkuball í Iðnó 13.apríl

Afríkuball í Iðnó þann 13.apríl 2012

Dönsum við líflega afríska tónlist fram á nótt

Dance to popular African music

Cheick Bangoura slær á djembé trommu

Húsið opnar klukkan 22.00-02.

Afríkuball í Iðnó 13.apríl

Svo munum við hrista okkur og skekja við afríska tónlist fram á nótt.

Það ætti enginn að láta þetta fram hjá sér fara - það er fátt skemmtilegra, hollara og gleðilegra en að gleyma sér í dansi í góðum félagasskap

Miðaverð 1200kr

Endilega takið daginn frá

p.s ef þið hafið áhuga þá mun Iðnó bjóða upp á sérstakan Afríku matseðill og 10% afslátt af ALACARTE á PISA Í LÆKJARGÖTU  fyrir þá sem eru að fara á ballið.

Ársskýrsla 2011

Ársskýrsla 2011

Aðalfundur Afríku 20:20 var haldinn þ. 21. nóvember 2010 á risinu á Café Haiti við Reykjavíkurhöfn. Á aðalfundinn mættu 12 félagsmenn, stjórn meðtalin. Að lokinni sýningu á um 30 mín langri kvikmynd um Íslandsferð Super Mama Djombo frá Gíneu-Bissá fyrr um sumarið var gengið til venjubundinna aðalafundarstarfa og stjórn kosin:

Formaður Geir Gunnlaugsson

Ritari og varaformaður: Jón Geir Pétursson

Gjaldkeri: Magnfríður Júlíusdóttir

Meðstjórnendur: Stefán Kristmannsson og Hulda Gunnarsdóttir

Varamenn: Birna Halldórsdóttir og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir

Málstofunefnd : Guðrún Helga Jóhannsdóttir

Skoðunarmaður reikninga : Lilja D. Kolbeinsdóttir

Á starfsárinu hefur stjórnin haldið fimm formlega stjórnarfundi auk ótal óformlegra funda með samstarfsaðilum. Guðrún Helga fór til Senegal á starfsárinu og enginn tók við af henni í málstofunefnd. Fundir stjórnar voru haldnir á kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar.

Félagsmenn

Einstaklingar á útsendingarlista félagsins eru nú 113 talsins og fá reglulega upplýsingar um starfsemi félagins. Auk þeirra fá nokkrir tugir annarra sem hafa t.d. sótt málstofur félagsins upplýsingar um starfsemi félagsins með netpósti. Einnig er haldið úti Facebook síðu af Huldu Gunnarsdóttur með um 250 vini. Í allt borguðu 12 félagsmenn árgjaldið fyrir 2011.

Samstarf við Barnaheill og Crymogea

Í janúar var Afríka 20:20 í samstarfi við Barnaheill -Save the Children á Íslandi og bókaútgáfuna Crymogea um framkvæmd Afríkuviku í lok janúar mánaðar.

Atburðir á Afríkuvikunni sem voru á ábyrgð Afríku 20:20 voru eftirfarandi:

I. Málstofur

Miðvikudagur 26. janúar

Kl. 12:00-13:30 Málstofa í Háskólanum í Reykjavík, í Herkúles

Samstarf Íslendinga við Úganda

Fjallað var um aðstoð Íslendinga við Úganda. Framsögu höfðu Árni Helgason, fyrrverandi umdæmisstjóri ÞSSÍ í Úganda, sem sagði frá því hvers vegna Úganda var valið sem samstarfsland, Lilja Kolbeinsdóttir, menntunar- og þróunarfræðingur sem fjallaði um fullorðinsfræðslu í landinu, Þór Clausen, viðskiptafræðingur sem sagði frá frumkvöðlaverkefni ÞSSÍ og HR í landinu og Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi sem sagði frá menntunarverkefni samtakanna í Úganda. Að loknum erindum voru umræður. Fundarstjóri var Geir Gunnlaugsson. Málstofan er haldin í samstarfi við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Málstofugestir voru í 31 talsins.

Fimmtudagur 27. janúar

Kl. 16:00-17:30 Málstofa í Háskóla Íslands, í stofu 202 í Odda

Kynning rannsókna í Afríku sunnan Sahara

Inga Dóra Pétursdóttir, MA í þróunarfræðum og framkvæmdastýra UN Woman á Íslandi, fjallaði um útbreiðslu alnæmis í Malaví, Jón Geir Pétursson, doktorsnemi í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaskólann að Ási í Noregi sagði frá áhrifum umhverfisstjórnunar á lífsafkomu almennings á Elgonfjalli í Úganda og Kenýja og Fjóla Einarsdóttir, MA í þróunarfræðum, velti því fyrir sér hvort bjargir hjálparsamtaka bjargi götubörnum í Windhoek í Namibíu. Fundarstjóri var Jónína Einarsdóttir og var málstofan haldin í samstarfi við MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Félagsvísindasvið Háskóla íslands. Málstofugestir voru 26 talsins.

II. Kvikmyndasýning

Fimmtudagur 27. janúar 2011

Kl. 20:00 Bíó Paradís

Sýndar voru þrjár heimildamyndir frá Gíneu-Bissá

Frá Bijagoseyjum - Lífið á Canhabaque (45 mín)

Hér segir frá lífi fólksins í þorpinu Endena á eyjunni Canhabaque sem er ein af eyjum í Bijago eyjaklasanum skammt undan strönd Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku. Þar kveða siðir meðal annars á um að ungir menn verði að gangast undir vald öldunga þorpsins. Þetta felur í sér sérstaka vígsluathöfn og að henni lokinni segja þeir skilið við fjölskyldu sína. Í myndinni er einnig brugðið upp svipmynd af daglegu lífi fólks á eyjunni og baráttunni fyrir lífsviðurværi í þorpinu.

Heimildamynd eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.

Börn á Bijagos eyjunum (15-20 mín)

Um er að ræða þrjár stuttar myndir um systurnar Juba og Bondia sem eru sjö og ellefu ára gamlar. Í fyrstu myndinni fylgjum við systrunum þar sem þær sækja ferskt drykkjarvatn í lind sem sprettur fram í flæðarmálinu. Í annarri mynd veiða systurnar krabba á leirunum sem koma úr sjó á fjöru, en þar krafsa þær smákrabba upp úr sandinum, en krabbarnir eru mikilvæg fæðubót fyrir fjölskylduna. Þriðja myndin er stutt mynd um Jubu sem tekur sér sveðju í hönd og heldur út í skóg til að afla sér efnivið í nýtt strápils, en pilsið hnýtir hún úr berki greinanna sem hún heggur í skóginum. Í myndinni sjáum við hvernig pilsið verður til og hvernig hún að lokum fer í nýja pilsinu sínu og tekur þátt í hringdansi stúlknanna í þorpinu.

Heimildamyndir eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.

Landið sem gleymdist (42 mín)

Þessi heimildamynd segir frá því þróunarstarfi sem UNICEF á Íslandi hefur unnið í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku í samvinnu við íslensk fyrirtæki og almenning. Myndin segir frá daglegu lífi og aðstæðum barna í landinu, þeirri þörf sem er fyrir þróunaraðstoð og starfinu sem verið er að vinna til að gera líf íbúa þessa fátæka lands léttbærara. Myndin var tekin upp í Gíneu-Bissá á árinu 2005. Myndin sýnir vel hvernig fólk reynir að draga fram lífið þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Heimildamynd eftir Dúa J. Landmark.

Auk þessa fór einn stjórnarmaður með starfsmanni Barnaheilla til að kynna málefni álfunnar í Snælandsskóla og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Afríkuvikan vakti athygli í fjölmiðlum og lauk með uppboði á myndum Páls Stefánssonar ljósmyndara sem höfðu verið til sýnis víðs vegar um bæinn. Samstarfið við Barnaheill gekk mjög vel og vakti verðskuldaða athygli á málefnum Afríku sunnan Sahara.

Kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara

Hulda og Jón Geir hafa f.h. stjórnar verið í sambandi við forsvarsmenn Bíó Paradís til að kanna möguleika á frekari samstarfi um að sýna kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara. Þessu var sýndur áhugi af hálfu þeirra og birtist m.a. í sýningu þriggja mynda frá Gíneu-Bissá á Afríkuvikunni. Sýningin var vel sótt. Ekki hefur orðið af fleiri sýningum og nýr forráðamaður tekinn við.

Félagið vakti athygli félagsmanna á kvikmyndinni Sá sem kallar frá Tchad (2011) á frönsku kvikmyndahátíðinni í janúar 2012 (http://www.imdb.com/title/tt1639901/).

Heimasíða félagsins

Félagið fékk lénið afrika2020.is á árinu í stað africa.is. Umsýsla heimasíðunnar var í höndum Huldu Gunnarsdóttur.

Vorball Afríku 20:20

Vorball félagsins var haldið öðru sinni í Iðnó þ. 15. apríl 2011. Prenttækni studdi félagið með prentun auglýsingaplakata sem dreift var víða um bæinn. Einnig var ballið auglýst gegnum Facebook og í öðrum aðgengilegum miðlum. Cheick Bangoura slagverksleikari frá Gíneu-Konakrí var fenginn til að spila á conga trommur við dans Söndru Erlingsdóttur. Ballið var vel heppnað og stóð undir sér með rúmlega 80 gestum sem borguðu aðgangseyri. Nokkrir til mættu eftir að miðasölu lauk og náðu síðustu dönsunum. Ákveðið er að halda næsta vorball í Iðnó þ. 13. apríl n.k.

Samfélagið í nærmynd

Afríka 20:20 var í samstarfi við stjórnendur Samfélagsins í nærmynd á Rás 1 á starfsárinu. Komu félagsmenn fram í átta þáttum í röð þar sem málefni Afríku sunnan Sahara voru rædd. Hlusta má á þættina á heimasíðu félagsins (sjá http://www.afrika2020.is/?p=174).

26. maí   Jón Geir Pétursson: Sviptingar við ofanverða Níl, m.a. erfið stofnun Suður-Súdan, kosningar og ólga í Úganda, skipting vatns o.fl.

9. júní      Stefán Kristmannsson: Kórsöngur frá Malavívatni-

16. júní    Magnfríður Júlíusdóttir: Jafnréttismál - reynsla frá Suður Afríku og Zimbabwe

23. júní    Sigurlaug Gunnlaugsdóttir: Orkumál í Afríku - m.a. reynsla frá Kenya (og/eða umfjöllun um baráttuna gegn Apartheit stefnu stjórnvalda í Suður-Afríku á sínum tíma)

30. júní    Birna Halldórsdóttir: Mikilvægi vatns - Vatnsverkefni Rauða Krossins  í Malaví.

7. júlí        Hulda Gunnarsdóttir: Félagsmál, sérstaklega kjör barna  - Namibía

14. júlí     Lilja Kolbeinsdóttir: Gildi menntunar, m.a. fullorðinsfræðslu - Reynsla og dæmi frá Angóla og Úganda

21. júlí     Geir Gunnlaugsson: Heilbrigðismál í Afríku með áherslu á Gíneu Bissá

Hver og einn viðmælandi kom með afríska tónlist með sér í þáttinn. Þessir þættir mæltust vel fyrir og sýndu stjórnendur þáttarins áhuga á því að endurtaka leikinn á komandi sumri.

Málstofa um þróunarsamvinnu

Þann 8. nóvember 2011 stóð félagið að málstofu, Þróunarsamvinna Íslendinga á tímamótum, í tengslum við ný samþykkta þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu Íslendinga. Málstofan var haldin í fundarsal Þjóðarbókhlöðunnar.

Setning: Geir Gunnlaugsson, formaður Afríka 20:20

Þróunarsamvinnuáætlun Íslendinga 2011-2014. Hermann Ingólfsson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu

Hvar komum við að gagni ? Hugleiðingar um val á samstarfslöndum. Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands

Ábyrgð Íslendinga í þróunarsamvinnu. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis

Mismunandi staða félagasamtaka. Inga Dóra Pétursdóttir, félagi í Afríka 20:20, og framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Að loknum erindum tóku fyrirlesarar þátt í  pallborðsumræðum ásamt  Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða Kross Íslands. Fundarstjóri var Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við HÍ. Málstofan var sótt af rétt um 40 manns og góðar umræður í lok fundar.

Önnur mál

Útgáfumál hafa verið til umræðu innan stjórnar en engin niðurstaða er enn fengin varðandi þau mál.

Komandi starfsár

Samstarf í stjórn hefur gengið með ágætum og margar spennandi hugmyndir komið upp varðandi áframhaldandi starf. Eins og að ofan greinir þá er búið að panta Iðnó fyrir dansleik þ. 13. apríl 2012. Útgáfumál og þróun heimasíðu verða sem fyrr á dagskrá. Málstofur eru mikilvægir þáttur í starfinu og æskilegt væri að hafa a.m.k. tvær málstofur á hvorri önn starfsársins. Einnig þarf að vinna meir að því að fá kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara.

Reykjavík, 7. mars 2012

Geir Gunnlaugsson

formaður